Tannréttingar

Vanda þarf til áætlanagerða áður en tannrétting er hafin því það styttir tímann sem viðkomandi þarf að vera í tannréttingu og hún verður markvissari.  Nútíma tannrétting tekur bara 2-3 ár. Með betri tækni og góðu skipulagi er hægt að ljúka flóknustu tannréttingum á þremur árum í Damon kerfinu og flestir eru búnir á 30 mánuðum, eða tveimur og hálfu ári. Mörg dæmi eru um að tannréttingu sé lokið á innan við 2 árum.

Í upphafi kemur viðkomandi í stutta skoðun þar sem staðan og horfur eru ræddar. Síðan er bókaður svokallaður gagnatökutími þar sem röntgenmyndir, ljósmyndir og afsteypur af tönnum eru gerðar til mælinga og áætlana. Þremur til fjórum vikum eftir gagnatöku er viðtalstími þar sem skrifleg kostnaðaráætlun er afhent og farið er yfir tannréttingaáætlunina. Síðan eru tannréttingatækin sett á og eiginleg tannrétting hefst.

Fyrsta skoðun kostar kr. 8760 og kr.13 090 ef röntgenmynd er tekin. Þar er staðan rædd og þær upplýsingar gefnar sem hægt er að gefa án röntgenmyndatöku. Algengustu spurningarnar eru um hvaða tækjabúnað þurfi, hvað tannréttingin taki langan tíma, hvenær sé best að byrja og hvað hún muni kosta. Ef ákveðið er að fara í tannréttingu kemur viðkomandi í fyrrgreindann gagnatökutíma og viðtalið í framhaldinu og svo hefst hin eiginlega tannrétting sem oftast tekur 2-3 ár. Þegar búið er að taka spangirnar af tekur við eftirmeðferð í 1-2 ár og er hún innifalin í kostnaðaráætluninni. Mjög mikilvægt er að bitið sé rétt á jöxlum í lok tannréttingarinnar, en það tekur tíma að ná því. Það að rétta framtennur tekur stuttan tíma og er einfaldara. Í lokin eru stoðbogar límdir innan á framtennur í efri og neðri góm. Þetta er gert til þess að framtennurnar skekkist ekki aftur. Stoðbogar þurfa að vera minnst í tíu ár á tönnunum, eða fram að 25 ára aldri. Sumir þurfa að vera með stoðboga ævilangt. Þórir sinnir eftirliti í 1-2 ár að tannréttingu lokinni og er það innifalið í kostnaðaráætluninni. Með þessum aðferðum eru einungis 1% líkur á að einstaka tennur skekkist aftur að tannréttingu lokinni. Það er mun betra en áður var, en í rannsóknum fyrir 30-40 árum voru dæmi um að tennur hafi skekkst í 50% tilfella eftir tannréttingu, sem ekki er ásættanlegt. Það skiptir því miklu máli að tannréttingatannlæknirinn haldi vel utan um allt skipulag við tannréttinguna og sinni flestum þáttum sjálfur. Síðra er að láta ófaglært fólk framkvæma stóran hluta af tannréttingunni. Þá er hætta á að tannlæknirinn missi yfirsýn og tannréttingin dragist á langinn. Ef farið er eftir leiðbeiningum Þóris í tannréttingunni, er fyrsta flokks árangur tryggður.